Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála hefur að eigin frumkvæði eftirlit með gæðum þjónustu, sbr. 14.-16. gr. laga um stofnunina. Eftirlit getur verið reglubundið, byggt á áhættumati eða framkvæmt af ákveðnu tilefni, t.d. vegna ábendinga eða upplýsinga sem stofnuninni hafa borist vegna kvörtunarmáls. Þá getur eftirlit bæði verið almennt og afmarkað, t.d. við einstaka málaflokka, þjónustuveitendur, starfsstöðvar eða atvik.
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála skal afla allra upplýsinga og gagna sem eru nauðsynleg fyrir eftirlit stofnunarinnar. Stofnunin getur framkvæmt vettvangsathuganir á heimilum, stofnunum og öðrum starfsstöðvum þar sem veitt er þjónusta sem lýtur eftirliti stofnunarinnar. Stofnuninni er heimilt að framkvæma vettvangsathugun án þess að gera boð á undan sér. Við framkvæmd vettvangsathugana ber stofnuninni að gæta að friðhelgi einkalífs þeirra sem búa eða dvelja á heimilum og stofnunum sem athuganir lúta að. Sá sem veitir eftirlitsskylda þjónustu skal veita stofnuninni frjálsan aðgang að öllum starfsstöðvum sínum. Hann skal jafnframt veita stofnuninni heimild til að afla milliliðalaust upplýsinga frá notendum þjónustunnar, aðstandendum og starfsfólki. Við framkvæmd eftirlits skulu notendur fá tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við stofnunina í samræmi við markmið þjónustunnar og aðstæður notenda.
Frumkvæðisathugunum stofnunarinnar lýkur með skýrslu. Í skýrslu skal eftir atvikum gerð grein fyrir tilefni eftirlits, framkvæmd athugunar, gagnaöflun og lýsingu á vettvangsathugun. Í skýrslu skal jafnframt gera grein fyrir niðurstöðum stofnunarinnar um hvort þjónusta sé í samræmi við gæðaviðmið og ákvæði laga, reglugerða, reglna, samninga og leiðbeininga og/eða skilyrði rekstrarleyfis. Ef tilefni er til skal stofnunin setja fram tilmæli um úrbætur sem gera verður innan ákveðins tíma.
Um stjórnsýslukæru vegna stjórnvaldsákvarðana Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.