Tilkynningar um alvarleg óvænt atvik

Tilkynningar um alvarleg óvænt atvik

Allir sem veita þjónustu sem lýtur eftirliti Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála skulu skrá óvænt atvik, sbr. 12. gr. laga um stofnunina. Með óvæntu atviki er átt við óhappatilvik, mistök, vanrækslu eða önnur atvik sem valdið hafa notanda þjónustu tjóni eða hefðu getað valdið notandanum tjóni. Tilkynningu er hægt að koma á framfæri á „Mínum síðum“.

Þeim sem lúta eftirliti Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála er skylt að tilkynna stofnuninni án tafar um alvarleg óvænt atvik. Með alvarlegu óvæntu atviki er átt við atvik sem valdið hefur eða hefði getað valdið notanda þjónustu varanlegu líkamlegu eða andlegu tjóni eða orðið honum að bana.

Þegar stofnuninni berst tilkynning um alvarlegt óvænt atvik hefur hún rannsókn á atvikinu. Markmið rannsóknarinnar er að leita skýringa sem geta nýst til að koma í veg fyrir að sambærileg atvik eigi sér stað. Stofnunin lýkur umfjöllun um atvikið með skýrslu.

Ef rannsókn leiðir fram vitneskju eða vekur grun um refsiverða háttsemi beinir stofnunin ábendingu um slíkt til lögreglu.

Ef atvik tengist veitingu heilbrigðisþjónustu upplýsir stofnunin embætti landlæknis um atvikið.