Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála tók til starfa 1. janúar 2022 þegar lög nr. 88/2021 um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála tóku gildi. Stofnunin tekur við verkefnum Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar sem starfaði sem ráðuneytisstofnun frá 7. maí 2018 til 31. desember 2021, fyrst innan velferðarráðuneytis og síðar félagsmálaráðuneytis, á grundvelli heimildar í lögum um Stjórnarráð Íslands. 

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála mun fara með eftirlit með gæðum þjónustu sem er veitt á grundvelli barnaverndarlaga, laga um Barna- og fjölskyldustofu, laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, laga um málefni aldraðra, laga um Ráðgjafar- og greiningarstöð, laga um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Þá mun Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála veita rekstrarleyfi og þróa gæðaviðmið á grundvelli bestu mögulegu þekkingar á málaflokkum á verkefnasviði stofnunarinnar. 

Réttindagæslumenn fatlaðs fólks og sérfræðiteymi um aðgerðir til að draga úr beitingu nauðungar störfuðu innan ráðuneytisstofnunarinnar. Þar voru einnig teknar ákvarðanir um afgreiðslu umsókna um neyðaraðstoð vegna heimferðar íslenskra ríkisborgara á grundvelli 66. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þessi verkefni hafa flust til félagsmálaráðuneytisins. Þar að auki hafði Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar annast endurgreiðslur til sveitarfélaga á grundvelli 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og 15. gr. barnaverndarlaga en þetta verkefni fluttist til Fjölmenningarseturs í maí sl.  

Nýjustu fréttir