Fóstur

Fóstur felst í því að barnaverndarþjónusta feli sérstökum fósturforeldrum umsjá barns í að minnsta kosti 3 mánuði. Fóstur getur verið tímabundið, varanlegt eða styrkt. Markmið fósturs er að tryggja barni uppeldi og umönnun innan fjölskyldu svo sem best hentar þörfum þess. Fósturforeldrar skulu vera í stakk búnir til þess að veita barni umönnun og öryggi.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála veitir leyfi til að taka börn í fóstur að fenginni umsögn Barna- og fjölskyldustofu. Eftir að stofnuninni berst umsókn og nauðsynleg fylgigögn er beiðni send til Barna- og fjölskyldustofu um gerð umsagnar. Í framhaldi boðar Barna- og fjölskyldustofa umsækjendur á námskeið fyrir verðandi fósturforeldra. Markmið námskeiðsins er annars vegar að leggja mat á hæfni umsækjenda og hins vegar að veita umsækjendum leiðbeiningar og fræðslu. Þegar umsögn Barna- og fjölskyldustofu liggur fyrir getur Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála lagt endanlegt mat á umsóknina og tekið ákvörðun um útgáfu leyfis. Fósturleyfi eru veitt til fimm ára að jafnaði.

Sótt er um leyfið á grundvelli 8. og 9. gr. laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála nr. 88/2021, 66. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og reglugerðar um fóstur nr. 804/2004.

 

Ferill umsóknar um leyfi til að gerast fósturforeldri:

 

Nánari upplýsingar um fóstur má nálgast á heimasíðu Barna- og fjölskyldustofu.

Hægt er að sækja um leyfið á Mínum síðum.

 

Nauðsynleg fylgigögn fyrir umsókn:
  • Greinargerð umsækjanda um ástæður þess að óskað er leyfis til að taka barn í fóstur
  • Hjúskaparvottorð ef um hjón er að ræða eða búsetuvottorð ef um óvígða sambúð er að ræða
  • Samþykki fyrir öflun sakavottorðs allra heimilismeðlima eldri en 15 ára
  • Læknisvottorð – (sem staðfestir heilsufar viðkomandi og hvort umsækjandi er með langvinna sjúkdóma, líkamlega eða af geðrænum toga sem hafa áhrif á daglega virkni hans)
    • Hægt er að afla læknisvottorðs hjá heimilislækni
  • Skattaskýrslur síðastliðinna tveggja ára
  • Umsögn ættingja eða náinna vina (a.m.k. tveggja)
  • Meðmæli vinnuveitanda

 

Nauðsynleg fylgigögn fyrir endurnýjun umsóknar:
  • Greinargerð umsækjanda um ástæður þess að óskað er eftir endurnýjun leyfis til að taka barn í fóstur
  • Samþykki fyrir öflun sakavottorðs allra heimilismeðlima eldri en 15 ára
  • Læknisvottorð – (sem staðfestir heilsufar viðkomandi og hvort umsækjandi er með langvinna sjúkdóma, líkamlega eða af geðrænum toga sem hafa áhrif á daglega virkni hans)
    • Hægt er að afla læknisvottorðs hjá heimilislækni

 

Tenglar á lög og reglugerðir vegna umsóknar um fóstur

Lög um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála nr. 88/2021

Barnaverndarlög nr. 80/2002

Reglugerð um fóstur nr. 804/2004