Rekstrarleyfi

Rekstrarleyfi

Einkaaðilum, sem hyggjast veita þjónustu er lýtur eftirliti Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála, er skylt að afla rekstrarleyfis áður en byrjað er að veita þjónustu sem lýtur eftirliti stofnunarinnar, sbr. II. kafli laga um stofnunina. Sótt er um rekstrarleyfi á “Mínum síðum”.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála skal veita þeim umsækjendum rekstrarleyfi sem sýna fram á að geta veitt þjónustu sem er örugg og í samræmi við gæðaviðmið og ákvæði laga, reglugerða, reglna, samninga og leiðbeininga. Við matið skal stofnunin m.a. líta til:

  • markmiðs með þjónustu,
  • húsnæðis og annars aðbúnaðar,
  • fjölda starfsfólks,
  • menntunar og hæfis starfsfólks,
  • fjármögnunar og annarra fjárhagslegra þátta,
  • fyrirkomulags innra eftirlits.

Umsókn

Umsókn um rekstrarleyfi skal vera skrifleg og skulu henni fylgja þau gögn sem Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála gerir kröfu um. Heimilt er að hafna umsókn á þeim grundvelli einum að tilskilin gögn hafi ekki borist. Áður skal umsækjanda þó leiðbeint um kröfur til framlagningar gagna.

Útgáfa rekstrarleyfis

Rekstrarleyfi skal gefið út til ákveðins tíma, þó ekki lengur en til fimm ára. Heimilt er að binda rekstrarleyfi skilyrðum sem að mati Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála eru til þess fallin að tryggja öryggi og gæði rekstrarleyfisskyldrar þjónustu og að þjónustan uppfylli gæðaviðmið og ákvæði laga, reglugerða, reglna, samninga og leiðbeininga, m.a. um þá þjónustu sem fyrirhugað er að veita, húsnæði, aðbúnað, starfsmannaþörf, hæfi starfsfólks, fjármögnun og aðra fjárhagslega þætti og fyrirkomulag innra eftirlits auk skilyrða um upplýsingagjöf til stjórnvalda.

Stofnuninni er heimilt að veita umsækjanda rekstrarleyfi til bráðabirgða á meðan umsókn er til meðferðar hjá nenni. Við mat á því hvort veita eigi tímabundið leyfi skal stofnunin m.a. líta til hagsmuna notenda og hvort líklegt sé að umsókn um rekstrarleyfi verði samþykkt.

Endurnýjun rekstrarleyfis

Rekstrarleyfishafi sem óskar að halda áfram starfsemi skal senda Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála umsókn um endurnýjun leyfis áður en rekstrarleyfi rennur út. Umsækjandi um endurnýjun rekstrarleyfis skal í umsókn gera grein fyrir atriðum sem kunna að hafa breyst frá því að leyfi var síðast veitt. Endurnýjað rekstrarleyfi skal gefið út til ákveðins tíma, þó ekki lengur en til fimm ára.

Afturköllun rekstrarleyfis

Ef þjónusta rekstrarleyfishafa uppfyllir í veigamiklum atriðum ekki skilyrði rekstrarleyfis eða er í veigamiklum atriðum ekki í samræmi við ákvæði laga, reglugerða, reglna og/eða samninga skal Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála afturkalla rekstrarleyfið, sbr. 19. gr. laga um stofnunina.

Jafnframt er heimilt að afturkalla rekstrarleyfi ef verulegar breytingar verða á ytri aðstæðum, t.d. vegna breytinga á lögum eða breyttrar stjórnsýsluframkvæmdar og ef almannahagsmunir krefjast þess.

Að jafnaði skal ekki afturkalla rekstrarleyfi nema rekstrarleyfishafa hafi áður verið veitt áminning. Þó er heimilt að afturkalla rekstrarleyfi án undanfarandi áminningar vegna alvarlegra atvika eða ef slík frávik eru í starfsemi rekstrarleyfishafa að stofnunin telur fyrirséð að ekki sé unnt að bæta úr þeim.

Þegar Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála hefur stjórnsýslumál sem kann að ljúka með afturköllun rekstrarleyfis skal hún eftir atvikum gera því stjórnvaldi sem gert hefur samning um þjónustu við rekstrarleyfishafa og öðrum stjórnvöldum sem koma að veitingu þjónustunnar viðvart um málið. Áður en rekstrarleyfishafa er tilkynnt um afturköllun rekstrarleyfis skal viðkomandi stjórnvöldum gert viðvart um niðurstöðu stofnunarinnar með hæfilegum fyrirvara svo unnt sé að gera nauðsynlegar ráðstafanir með tilliti til þarfa notenda þjónustunnar.