Forsaga og hlutverk
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála tók til starfa 1. janúar 2022 þegar henni var komið á fót með lögum nr. 88/2021. Stofnunin byggir á grunni Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar sem starfaði sem ráðuneytisstofnun frá 7. maí 2018 til 31. desember 2021. Stofnunin er óháð í störfum sínum en heyrir stjórnskipulega undir félagsmálaráðuneytið.
Markmið með stofnun Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála er að efla og samræma faglegt eftirlit með gæðum velferðarþjónustu. Hin nýja stofnun tók við eftirlitsverkefnum sem hafði áður verið sinnt af félagsmálaráðuneytinu og Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar, auk þess að taka við tilgreindum eftirlitsverkefnum annarra stofnana, einkum Barnaverndarstofu. Þá tók hin nýja stofnun einnig við útgáfu leyfa frá Barnaverndarstofu og Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar.
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála fer með eftirlit með gæðum þjónustu sem er veitt á grundvelli eftirfarandi laga:
- Barnaverndarlög
- Lög um Barna- og fjölskyldustofu
- Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga
- Lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir
- Lög um málefni aldraðra
- Lög um Ráðgjafar- og greiningarstöð
- Lög um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu
- Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
Verkefni Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála eru meðal annars að:
- þróa gæðaviðmið á grundvelli bestu mögulegu þekkingar á málaflokkum á verkefnasviði stofnunarinnar,
- veita rekstrarleyfi og hafa eftirlit með því að skilyrði rekstrarleyfa séu uppfyllt,
- hafa eftirlit með gæðum þjónustu,
- taka á móti og vinna úr kvörtunum frá notendum þjónustu,
- safna upplýsingum, halda skrár og vinna úr upplýsingum frá þeim sem lúta eftirliti stofnunarinnar,
- sinna öðrum verkefnum sem stofnuninni eru falin samkvæmt ákvörðun ráðherra.
Eftirlitsskylda annarra aðila
Allir sem veita þjónustu sem lýtur eftirliti Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála skulu hafa virkt innra eftirlit með starfsemi sinni. Stofnunin leysir önnur stjórnvöld ekki undan skyldum til eftirlits með starfsemi á vegum stjórnvaldsins, hvort sem um er að ræða þjónustu sem stjórnvaldið rekur eða að þjónustan sé rekin á grundvelli samnings við þriðja aðila. Þá kemur eftirlit Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála ekki í staðinn fyrir eftirlit sem öðrum stjórnvöldum er falið í lögum.