Útgáfa greinargerðar um meðferðarheimilið í Varpholti og á Laugalandi 1997-2007

Útgáfa greinargerðar um meðferðarheimilið í Varpholti og á Laugalandi 1997-2007

Nú er lokið umfangsmikilli vinnu við greinargerð hjá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV) um meðferðarheimilið í Varpholti og á Laugalandi árin 1997-2007. Tilefni könnunarinnar er að þáverandi félags- og barnamálaráðherra, fól þáverandi Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar (GEF) „að kanna hvort og þá í hvaða mæli börn, sem vistuð voru á meðferðarheimilinu Varpholti/Laugalandi á árunum 1997 til 2007, hafi sætt illri meðferð, andlegu eða líkamlegu ofbeldi meðan á dvöl þeirra stóð“. Nefnd, skipuð fjórum sérfræðingum með þekkingu á rannsóknum, barnavernd og áföllum unnu að úttektinni.

Í greinargerðinni má finna samantekt í lok hvers kafla þar sem settar eru fram vel sundurliðaðar og lýsandi niðurstöður ásamt atriðum til sérstakrar athugunar. Í lokakafla greinargerðarinnar eru dregnar saman helstu niðurstöður. Um að ræða umfangsmikið, og vandasamt verkefni sem leitast var við að vinna af kostgæfni og fagmennsku. Verkefnið stóð samfellt yfir í um 18 mánuði. Greinargerðin er alls um 237 blaðsíður og er birt á vef Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála; www.gev.is. Ásamt greinargerðinni er einnig birt á heimasíðu stofnunarinnar 5 blaðsíðna ítarefni með samantekt á megin innihaldi greinargerðarinnar og helstu niðurstöðum nefndarinnar. Niðurstöðurnar eru fjölmargar og snúa að ýmsum þáttum barnaverndarþjónustu og þjónustu á meðferðarheimilinu frá tímanum sem um ræðir. Hér eru nokkrar af helstu niðurstöðum í greinargerðinni, en eru þó á engan hátt tæmandi lýsing:

 

  • Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar mátti greina að hópurinn sem kom til dvalar á meðferðarheimilinu að Varpholti/Laugalandi á árunum 1997-2007 hafði ólíkan bakgrunn og að vandi barnanna var oft og tíðum fjölþættur og þarfirnar flóknar.
  • Sálfræðiþjónustu fyrir börnin á meðferðarheimilinu var ábótavant og að ekki hafi verið brugðist á fullnægjandi hátt við ákalli um að hún yrði aukin til að mæta þörfum skjólstæðinganna.
  • Þegar ljóst varð hve algengt það var að skjólstæðingar heimilisins hefðu orðið fyrir áfalli og ofbeldi og glímdu við afleiðingar þess, áður en dvölin hófst, hefði þurft að mæta því á markvissari hátt og gefa vinnu með afleiðingarnar mun meira rými í meðferðarstarfinu.
  • Yfirgnæfandi meirihluti fyrrum vistbarna, er viðtölin náðu til, upplifðu andlegt ofbeldi við dvölina í Varpholti og á Laugalandi, sem lýsti sér í óttastjórn, harðræði og niðurbroti. Sterkar vísbendingar eru um að alvarlegu andlegu ofbeldi hafi verið beitt með kerfisbundnum hætti. Frásagnir eru frá um helmingi fyrrum vistbarna, sem viðtöl voru tekin við, af líkamlegu ofbeldi og áreitni og önnur börn urðu vitni að slíku.
  • Eftirlitsskylda barnaverndaryfirvalda brást að því leyti að þau hefðu átt að bregðast við ákalli um aukna geðheilbrigðisþjónustu, hefðu átt að skerast í leikinn þegar ljóst var hve mikið álag hvíldi á starfsfólki meðferðarheimilisins og að skoðun á dagbókum og fundargerðarbókum hefði átt að vekja grunsemdir um neikvæð viðhorf í garð vistbarna og gefa tilefni til að kanna hvort þau endurspegluðust í framkomu við þau.
  • Á þessum tíma, er athugunin nær til, var til gagnreynd þekking um afleiðingar áfalla í æsku. Nokkuð ljóst er að á þeim tíma hafði sú faglega þekking ekki verið innleidd í meðferðarúrræði Barnaverndarstofu á meðferðarheimilinu í Varpholti og á Laugalandi.

 

Áréttað skal að GEV vill leitast við að sýna ýtrustu varfærni og nærgætni í tengslum við birtingu greinargerðarinnar og gæta þannig hagsmuna þeirra sem efnið varðar. Í kjölfar útgáfunnar kunna að vakna spurningar og álitaefni, einkum frá þeim sem könnunin fjallar um. Efni greinagerðarinnar er mjög viðamikið, viðkvæmt fyrir þá sem það snertir og því viðbúið að hlutaðeigandi aðilar þurfi einhvern tíma til að vega og meta efnið og innihaldið. Ljóst er að innihaldið mun vekja upp erfiðar minningar fyrir mörg þau sem dvölu á meðferðarheimilinu. Því hefur öllum hlutaðeigandi verið boðið að óska eftir að fá kynningu á skýrslunni og umræður um niðurstöður í minni hópum hjá GEV.  Stjórnvöld munu svo bjóða upp á sérstakan stuðning fyrir fyrrum vistbörn í kjölfar útgáfu skýrslunnar, sem felst í að hægt er að leita til Bjarkarhlíðar í s. 553-3000. Þetta hefur þegar verið kynnt í tölvupósti eða með skilaboðum til þeirra aðila sem við höfum upplýsingar um.

 

Hér fyrir neðan má finna slóð fyrir greinargerðina í heild sinni og ítarefnið. Yfirstrikanir í greinargerðinni eru vegna persónuverndarsjónarmiða og hafa ekki áhrif á niðurstöður könnunarinnar.

 

Ítarefni GEV vegna greinargerðar um Varpholt-Laugaland

Greinargerð um meðferðarheimilið í Varpholti og á Laugalandi 1997-2007

 

Fyrir hönd Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála,

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri.

Nýjustu fréttir